16.1.2008 | 15:09
Strætó í Grafarholti.
Ég hef verið að nota strætó öðru hverju og þá yfirleitt tilneyddur. Hérna í Grafarholtinu háttar þannig til að leið 18 gengur hér en eingöngu á 30 mínútna fresti. Þar að auki eru notaðir ýmist gamlir og lúnir vagnar eða lítill vagn sem er eins og hestakerra. Hastur og óvistlegur. Ég er viss um án þess að kynnt mér það til hlítar að ekkert hverfi í borginni sé með hálftíma tíðni á vögnunum. Mér finnst þetta skjóta frekar skökku við því engin þjónusta er í þessu hverfi fyrir utan grunnskóla. Heilsugæsla , bókasafn og önnur þægindi sem flestir borgarbúar hafa innan seilingar þurfum við að sækja í önnur hverfi, annað hvort þá Árbæ eða Grafarvog. Ég hef ekki orðið var við að við fengjum afslátt af strætógjöldum hvað þá að við borgum lægri skatta hér heldur en aðrir íbúar borgarinnar þrátt fyrir nánast enga þjónustu. En kannski hef ég yfirmenn borgarinnar fyrir rangri sök. Líklega eru þeir að ræða þetta á vettvangi umræðustjórnmálanna lýðræðislegu. En ef þau eru svona lýðræðisleg mundi ég vilja heyra eitthvað frá þeirri umræðu eki bara hvað á að gera við kofana á Laugaveginum. Sem borgarstjórn reyndar treysti sér ekki til að ákvarða neitt um heldur lét húsfriðunarnefnd um skítverkin.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.